Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 761  —  359. mál.
Leiðrétt tafla.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um gistináttaskatt.


     1.      Hversu mikið var innheimt í gistináttaskatt ár hvert 2011–2022, sundurliðað eftir eftirfarandi gististöðum:
                  a.      Flokkur I: Heimagisting,
                  b.      Flokkur II: Gististaður án veitinga,
                  c.      Flokkur III: Gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum,
                  d.      Flokkur IV: Gististaður með áfengisveitingum,
                  e.      aðrir skattskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 87/2011, um gistináttaskatt?

    Við vinnslu svarsins var leitað til Skattsins með gögn til að svara fyrirspurninni. Skatturinn býr ekki yfir áreiðanlegum gögnum um innheimtu gistináttaskatts sem eru sundurliðuð eftir umbeðnum flokkum. Ráðuneytið hefur því ekki svar við þessum lið fyrirspurnarinnar.

     2.      Hversu mikið var innheimt í gistináttaskatt ár hvert 2011–2022, sundurliðað eftir staðsetningu greiðanda:
                  a.      Reykjavíkurborg,
                  b.      önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu,
                  c.      Suðurnes,
                  d.      Suðurland,
                  e.      Norðurland eystra,
                  f.      Norðurland vestra,
                  g.      Vestfirðir,
                  h.      Vesturland?

    Óskað er eftir upplýsingum um innheimtu gistináttaskatts fyrir ár hvert 2011–2022. Í svarinu er einungis að finna upplýsingar um fjárhæðir fyrir tímabilið 2012–2020 þar sem lög um gistináttaskatt, nr. 87/2011, tóku gildi í upphafi árs 2012, auk þess sem gistináttaskattur er ekki innheimtur af sölu gistingar á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2023. Allar fjárhæðir eru í milljónum króna og á verðlagi hvers árs.
    Í töflu 1 er að finna upplýsingar um innheimtu gistináttaskatts eftir svæðum og árum. Skatturinn er innheimtumaður á höfuðborgarsvæðinu en aðrir innheimtumenn eru sýslumenn téðra svæða. Hefur innheimtu sýslumanna á Austurlandi og í Vestmannaeyjum verið bætt við töfluna, til viðbótar við þær upplýsingar sem óskað var eftir. Í línu „Sveitarf. vegna erl. búsettra“ er að finna innheimtu frá aðilum sem voru með lögheimili erlendis þegar gistináttaskattur var lagður á.

Tafla 1: Innheimta eftir svæðum og árum. Tölur í millj. kr.
Svæði 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020
Höfuðborgarsvæði 103,4 122,3 130,9 158,8 210,7 368,1 689,2 640,5 99,5
Önnur sveitarfélög á hbsv. 7,7 7,9 14,3 14,5 19,3 31,3 52,0 65,6 7,0
Suðurnes 6,4 6,7 8,0 11,0 18,5 29,9 60,3 53,1 8,5
Suðurland 32,6 34,4 41,7 53,5 70,7 122,1 236,3 219,4 26,6
Norðurland eystra 21,0 22,4 29,8 33,5 48,6 69,6 142,7 152,6 20,0
Norðurland vestra 3,5 3,9 4,7 6,1 6,9 11,7 20,7 22,2 1,3
Vestfirðir 6,3 6,1 5,9 6,4 9,3 11,5 19,4 21,8 1,4
Vesturland 7,0 8,8 10,2 13,9 19,3 35,9 69,6 69,6 9,3
Austurland 7,4 8,3 9,0 10,7 14,5 21,7 48,3 44,3 2,2
Vestmannaeyjar 1,0 1,0 1,6 1,9 2,2 2,8 5,3 4,9 0,6
Sveitarf. vegna erl. búsettra 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,1 0,4 0,1 0,0
Samtals 196,2 221,8 256,1 310,2 420,1 704,8 1.344,3 1.294,2 176,5

     3.      Hversu miklu var varið úr ríkissjóði í uppbyggingu, viðhald og verndun fjölsóttra ferðamannastaða ár hvert 2011–2022, sundurliðað eftir staðsetningu ferðamannastaðar:
                  a.      Reykjavíkurborg,
                  b.      önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu,
                  c.      Suðurnes,
                  d.      Suðurland,
                  e.      Norðurland eystra,
                  f.      Norðurland vestra,
                  g.      Vestfirðir,
                  h.      Vesturland?

    Ráðstöfun úr ríkissjóði til uppbyggingar, viðhalds og verndunar fjölsóttra ferðamannastaða byggist í meginatriðum á tveimur liðum. Annars vegar er um að ræða framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hins vegar framlög samkvæmt landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
    Framkvæmdasjóður ferðamannastaða tók til starfa í ágúst 2011 á grundvelli laga nr. 75/2011 og er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi.
    Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun og í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál og hönnun og ferðamannaleiðir. Áætlunin er sett fram á grundvelli laga nr. 20/2016 og samþykkti Alþingi áætlunina sem þingsályktun í júní 2018.
    Í töflu 2 eru úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 1 á árunum 2012–2022 samkvæmt upplýsingum frá menningar- og viðskiptaráðuneyti. Í töflu 3 eru úthlutanir eftir landsáætlun á árunum 2018–2022 samkvæmt upplýsingum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

Tafla 2: Úthlutanir Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Tölur í millj. kr.
Svæði 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Höfuðborgarsvæðið 0,0 10,7 11,9 7,6 13,9 10,0 30,4 40,6 26,8 53,5 7,5
Suðurnes 1,5 22,8 9,0 3,4 40,2 40,5 12,8 13,0 23,6 121,6 33,4
Suðurland 40,4 223,3 356,0 573,6 281,7 180,7 82,3 141,4 147,8 234,6 177,8
Norðurland eystra 1,7 94,8 119,6 154,3 81,0 114,3 209,1 58,8 142,5 165,2 14,7
Norðurland vestra 4,5 10,3 8,5 42,0 12,2 14,8 105,5 32,8 13,0 74,2 93,4
Vestfirðir 1,5 17,6 26,4 64,0 59,3 47,7 76,1 77,9 164,5 50,7 95,4
Vesturland 9,5 156,6 63,3 65,1 82,4 129,4 88,3 76,8 40,7 102,7 36,6
Austurland 7,6 40,3 35,7 94,8 49,8 72,6 217,8 63,6 141,9 165,4 144,4
Hálendið 2,4 0,0 0,0 21,0 6,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0
Samtals 69,0 576,2 630,4 1.025,6 626,5 609,9 822,3 504,8 700,8 967,8 603,2

Graf 1:    Úthlutanir Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til hvers landshluta á árunum 2012– 2022 sem hlutfall af heildarúthlutunum áranna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 3: Úthlutanir úr landsáætlun. Tölur í millj. kr.
Svæði 2018 2019 2020 2021 2022 Samtals 2018–2022
Suðvesturland 20,0 17,5 22,5 23,9 43,2 127,1
Suðurland 313,4 494,1 405,2 320,4 601,8 2.135,0
Norðurland eystra 99,7 39,7 328,0 163,3 87,3 718,0
Norðurland vestra 3,0 42,7 5,5 4,0 5,7 60,9
Vestfirðir 16,1 24,0 65,1 94,2 47,2 246,5
Vesturland 93,3 103,1 34,5 112,7 89,4 433,0
Austurland 3,0 24,0 81,9 8,3 34,6 151,8
Samtals: 548,5 745,0 942,7 726,9 909,3 3.872,3

    Reykjavík hefur ekki fengið úthlutað framlögum samkvæmt landsáætluninni. Á Suðvesturlandi er eitt verkefni á ábyrgð Hafnarfjarðarkaupstaðar, þ.e. Krýsuvíkurbjarg, og nam úthlutun 3 millj. kr. á árinu 2018 og 11 millj. kr. á árinu 2020. Tvö verkefni eru á ábyrgð Grindavíkurbæjar og þau eru Eldvörp og Gunnuhver. Hið fyrra fékk úthlutað 2 millj. kr. hvort ár 2018 og 2019 og 14,6 millj. kr. árið 2021. Hið síðara fékk úthlutað 15 millj. kr. árið 2018.

Graf 2:    Úthlutanir samkvæmt landsáætlun til hvers landshluta á árunum 2018–2022 sem hlutfall af heildarúthlutunum áranna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





1    Sjá nánar um úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á vef Ferðamálastofu:
     www.ferdamalastofa.is/is/gogn/landupplysingar-kortagogn/uthlutanir-framkvaemdasjods-ferdamannastada